Hér að ofan skráir þú þig inn í Nóra til að skrá iðkendur,
þátttöku í námskeið og sjá hvaða námskeið eru í boði.
08.06.2020
Sala á árskortum knattspyrnudeildar hafin
Knattspyrnudeild Aftureldingar hefur hafið sölu á árskortum á heimaleiki karla- og kvennaliðs Aftureldingar en bæði lið leika í 1. deildinni í sumar. Kortin gilda á heimaleiki beggja liða og er það von félagsins að fjölmennt verði á heimaleiki félagsins í sumar.
Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt að styðja við meistaraflokka Aftureldingar og í ár þegar mikil óvissa er í samfélaginu og rekstur íþróttafélaga mjög erfiður.
Sala á kortunum er hafin og er hægt að kaupa árskort í gegnum vefverslun Aftureldingar. Einnig er hægt að kaupa kort hjá leikmönnum sem munu aka kortunum heim að dyrum.
Líkt og í fyrra verður boðið upp á sérstök árskort fyrir yngri knattspyrnuáhugamenn. Framtíðarkortið er fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára og kostar kortið aðeins 4.900. Kortið gildir á alla heimaleiki karla og kvenna í sumar. Einnig er boðið upp á Gull- og Silfurkort sem veita aðgang að öllum heimaleikjum.
Sérstök Iðkendakort verðaveitt öllum iðkendum í barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar sem fá frítt á völlinn í sumar. Einnig fá foreldrar/forráðamenn 50% afslátt af miðaverði séu þau í fylgd með barni með iðkendakort.
Frábærar fyrirmyndir prýða kortin að þessu sinni en það eru þau Margrét Regína Grétarsdóttir, fyrirliði meistaraflokks kvenna, og Andri Freyr Jónasson, fyrirliði meistaraflokks karla.